by Fanney Rún Stefánsdóttir
Copyright © 2017
Ég fór til Danmerkur í sumar frá 19. – 26. ágúst. Ég fór til Kaupmannahafnar að heimsækja stóru systur mína og kærastann hennar. Þau búa í S∅borg sem er í úthverfi Kaupamannahafnar og ég gisti þar hjá þeim. Þetta var mjög skemmtileg ferð af mörgum ástæðum, meðal annars vegna þess að ég var að ferðast ein til útlanda í fyrsta skiptið.
Ferðalagið
Ég lagði af stað frá Akureyri fimmtudaginn 18. ágúst með frænda mínum sem var að byrja í HÍ, hann skutlaði mér svo á flugvöllinn daginn eftir. Þá var ég algjörlega ein á báti og þurfti að gjöra svo vel að redda mér. Ég var vel snemma í því og var mætt á flugvöllinn þremur tímum fyrir brottför, þannig að ég dandalaðist bara í fríhöfninni fram að fluginu.
Ég átti sæti við gluggann en parið sem sat við hliðina á mér hafði rænt því. Ég var svolítið pirruð en ákvað að halda parinu góðu ef ég þyrfti að biðja þau um greiða einhverntíman seinna í fluginu. Það átti eftir að koma sér einstaklega vel þar sem að þegar ég kom á Kastrup vissi ég ekkert hvert ég ætti að fara og stóð þarna eins og álfur út úr hól. Parið tók eftir því og bauð mér að fylgja sér þannig komst ég tiltölulega snuðrulaust á leiðarenda til systur minnar sem beið eftir mér þegar ég var búin að finna töskuna mína.
Í ferðinni brölluðum við margt og mikið, við fórum meðal annars í svaðalega verslunarferð, í henni vorum við systurnar búnar að þræða mjööög margar búðir en höfðum enn ekki fundið neitt. Fyrr en við komum að H&M búðinni!! Þá fyrst fóru hjólin að snúast og við röðuðum vörunum í verslunarpokana og á endanum voru þeir orðnir vel þungir og úttroðnir. Þegar kom að því að borga virkaði kortið mitt ekki (týpískt!) sem var skrítið því mamma sagðist ætla að leggja inn á mig kvöldinu áður. Seinna kom í ljós að það hafði ekkert verið lagt inn á mig og aðeins 23 kr. inn á kortinu mínu. Í þessari verslunarferð var farin að finnast svolítil brunalykt af kortinu hennar Sólu og H&M orðið nokkrum þúsundköllum ríkari.
Við, ég, Sóla, Andreas kærasti Sólu og Søren pabbi hans skelltum okkur líka í Knutenborg safaripark sem er svona dýragarður þar sem þú keyrir eða labbar (fer eftir því hvort dýrin vilja borða þig) í gegnum svæðin hjá dýrunum. Við sáum fullt af krúttlegum dýrum til dæmis lemúra, apa, gíraffa og tígrisdýr. Á apasvæðinu keyrðum við ekki í gegn heldur fórum við inn í vagn sem var dreginn af dráttavél. Áður en þú fórst inn í vagninn fékkstu lúku af apamat sem þú settir svo í rennur svo að aparnir hoppuðu á vagninn og biðu þar eftir meiri mat. Við löbbbuðum líka um svæði þar sem voru litlir krúttlegir pónýhestar og úlfaldar sem ég klappaði. Ég og Andreas enduðum ferðina á því að skella okkur í vatnsrennibrautina og blotnuðum mikið við það.
Einn daginn skelltum ég og Sóla okkur í Tivoli á meðan Andreas fór á bókasafnið að skrifa mastersritgerðina sína. Eina markmiðið mitt í ferðinni var að fara í fallturninn í Tivoli því að ég er alveg ágætlega lofthrædd og ég gerði það. Þó að ég hafi öskrað eins og ég veit ekki hvað þá var þetta mjög gaman. Við prófuðum líka fullt af öðrum tækjum og röltum um allann garðinn og fengum okkur ís. Þegar við vorum búnar að vera þarna í nokkra tíma vorum við orðnar vel svangar þannig að við hittum Andreas á Sushi stað þar sem að við fórum á “all you can eat buffet” og það tók á að labba heim eftir það.
Seinasta daginn var rosalegur hiti alveg 30° C þannig að við ákváðum að skella okkur á ströndina í smá stund. Við flatmöguðum þar í rúman klukkutíma en svo þurftum við að fara heim því erfiðasta verkefnið var enn eftir það er að pakka öllu sem ég keypti ofan í töskuna mína. Það blessaðist allt að lokum og ég komst á réttum tíma á flugvöllinn og heil að höldnu heim.
Published: Jan 18, 2017
Latest Revision: Feb 12, 2017
Ourboox Unique Identifier: OB-227445
Copyright © 2017